Þú ert að skoða gamla vef Hins Hússins - Fara á nýjan vef


Hópar 2004

Skapandi sumarhópar

Fjölbreyttir hópar ungs fólks á aldrinum 16-25 ára munu starfa hjá Reykjavíkurborg í Hinu Húsinu í sex vikur í sumar við alls kyns skapandi verkefni. Auglýst var eftir umsóknum fyrir skapandi sumarstörf í mars og bárust alls 40 umsóknir. Úthlutunarnefnd valdi 18 hópa til starfa, og munu þeir auðga menningu og mannlífið í sumar með myndlist, tónlist, leiklist, ritlist, dansi og hönnun svo fátt eitt sé nefnt.

Hóparnir hófu störf þann 1. júní og vinna að sinni listsköpun alla virka daga. Það má því búast við fjölbreyttri menningarflóru í borginni, hvar sem er, hvenær sem er

 

Eftirfarandi Skapandi Sumarhópar eru starfandi í Hinu Húsinu sumarið 2004:

Hönnun: Lykkjufall.....úps....
Lykkjufall.. úps... eru tvær stúlkur sem stunda nám við fata- og textílhönnunardeild Listaháskóla Íslands. Afrakstur vinnu þeirra verður sýndur með óhefðbundnum tískusýningum í miðbæ Reykjavíkur í sumar.

Dans: Magadanshópurinn Magadansdísirnir
Fjórar magadansmeyjar úr Magadanshúsi Josyar Zareen. Dísirnar ætla að semja og æfa magadans og vera með uppákomur víðs vegar um borgina. Samhliða dansinum ætla dísirnar að halda uppi bloggsíðu þar sem þær munu auglýsa það sem er á döfinni, segja frá því sem á magadansdaga þeirra hefur drifið og sýna myndir frá uppákomum. Slóðin er: http://www.disirnar.blogspot.com

Fjöllistahópur: Tí/ýndu jarðaberin
Fimm lista- og menningarþyrst unglömb sem ætla að fremja ýmiskonar gjörninga, þar á meðal myndlistar- og tónlistargjörning. Umfram allt er vilji til að skapa, fegra, þroskast og vekja fólk til umhugsunar. Á dagskránni er til dæmis veggjalist, umhverfismúsík og gjörningar miðsvæðis í Reyk

Tónlist: Listalín
Klassískur tónlistahópur skipaður fjórum stúlkum. Eiga það allar sameiginlegt að stunda nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og hyggja á frekara nám á tónlistarsviðinu í framtíðinni. Í sumar munu þær koma fram við ýmis tækifæri í Reykjavík og flytja verk frá mismunandi tímabilum tónlistarsögunnar.


Tónlist: Blásarakvartett
Kvartett skipaður nemendum sem stunda nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Ætlunin er að spila víða um borgina, m.a. á hjúkrunar- og dvalarheimilum, Listasafni Einars Jónssonar og Árbæjarsafni. Á efnisskránni eru verk eftir þekktustu tónskáld blásaratónbókmenntanna.

Tónlist: Vinir Kela
Hljómsveitin Vinir Kela samanstendur af trompetleikara, saxófónleikara, hljómborðsleikara, gítarleikara og trommara. Allir hafa þeir lagt stund á tónlistarnám. Þeir spila jazz og blús og á lagalistanum er að finna þekkta standarda eins og Blues for Alice og All of me. Vinir Kela eru sjálfir stórkemmtilegir og viðmótsþýðir, líkt og Keli sjálfur.


Tónlist: Glymskrattarni
Glymskrattinn (demon musicius/musicus) er harðgert afbrigði mannapans sem hefur tekið sér bólfestu innan um hinn viti borna mann á þéttbýlissvæðum og lifir í samfélagi við hann að mestu leyti. Hegðun glymskrattans er þó töluvert frábrugðin hegðun homo sapiens. Má auðveldlega greina skrattana frá frændum sínum þegar þeir taka til við lúðrablástur, trommuslátt og gól úti á víðavangi. Sú röskun sem glymskrattin veldur í vistkerfinu er sérlega áberandi á elliheimilum og leikskólum auk sundstaða og annarra opinberra samkomustaða. Glymskrattarnir eru allir miklir jazzáhugamenn sem kemur bersýnilega í ljós í tónlistarflutningi þeirra.

Tónlist: Kammerhópurinn Krummi
Hópurinn er skipaður fjórum stúlkum sem allar hafa stundað framhaldsnám í tónlist. Leikin verður klassísk tónlist á píanó, selló, flautu og fiðlu. Hin ýmsu tímabil tónlistarsögunnar verða tekin fyrir.

Útgáfa/Ritlist: Bestikk-samvinnuskáldsaga
Hópinn skipa fjórir háskólanemar sem allir stunda nám við Háskóla Íslands. Rithópurinn ætlar saman að skrifa nútímaskáldsögu í sumar. Þau munu stíga á stokk og lesa úr skáldsögunni við viðeigandi tækifæri hér og þar um borgina. Hægt er að fylgjast með framvindunni á www.blog.central.is/bestikk.

Útgáfa/Ritlist: Ljóðahópurinn Malbik – vinnuflokkur ljóð.is
Ljóðahópurinn Malbik samanstendur af þremur háskólanemum. Ætlunin er að upphefja ljóðið á götum bæjarins með upplestrum, dreifingu ljóða og ýmiss konar uppákomum. Hópurinn er í samstarfi við vefinn ljóð.is og mun einnig vinna að honum í sumar. Upplýsingar um verkefnið verður hægt að nálgast í gegnum þann vef eða á slóðinni http://malbik.ljod.is

Útgáfa/Ritlist: The Reykjavík Grapevine
Blað sem gefið er út á ensku og er ætlað að veita ferðamönnum og þeim sem tala ekki íslensku upplýsingar um það sem er að gerast í Reykjavík og á landinu almennt. Blaðið kemur út á tveggja vikna fresti í sumar og kom fyrsta tölublað sumarsins út þann 28. maí síðastliðinn.

Kvikmyndir/Stuttmyndir/Ljósmyndir/Hljóð :Samferða
Verkefnaheiti á teiknimynd sem nokkrir einstaklingar sem hafa verið, eða eru í Listaháskóla Íslands standa fyrir. Þetta verður 15 mínútna löng handteiknuð mynd sem beint er gegn fordómum í daglegu lífi einstaklingsins. Ferillinn verður flókinn, en gróflega er áætlað að yfir 400 einstaklingar eigi eftir að koma við sögu við teiknun myndarinnar. Hverjum og einum er frjálst að taka þátt og teikna að vild. Hugmyndin er að sameina fólk í verki og hugsun gegn fordómum og skapa þannig handunnið verk hundruða einstaklinga.


Kvikmyndir/Stuttmyndir/Ljósmyndir/Hljóð :Hljóðgata (hljóð og videó fyrir Götuleikhúsið)
Einstaklingsverkefni nemanda sem stundar nám við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Verkefnið er spennandi tilraun til að vinna með hljóð og videó með Götuleikhúsi Hins Hússins. Í samvinnu við Götuleihúsið verður búinn til hljóðheimur sem spilar með því sem leikhúsið er að skapa hverju sinni. Vídeo og alls kyns myndir munu koma við sögu.

Leikhús: Landsleikur
Áhugaleikfélagið Landsleikur er skipað átta ungmennum sem öll hafa starfað með Herranótt, Leikfélagi Menntaskólans í Reykjavík. Þau ætla að setja upp leiksýninguna Dýrðlegt Fjöldasjálfsmorð, byggða á skáldsögu finnans Arto Pasillinna, í leikstjórn Bergs Ingólfssonar. Áhersla verður lögð á finnska menningu og hinn fræga kaldhæðna finnska húmor. Leikritið verður frumsýnt á fjölum Borgarleikhússins í byrjun ágúst. Um miðjan ágúst verður svo lagt af stað í leikferð um landið.


Leikhús: Tengdasynir Jódísar
Þrjú leikrit á sex vikum. Skrifuð sérstaklega fyrir hópinn. Tvær vikur á leikrit. Samin í fyrradag æfð í gær sýnd í dag engin ljós engin leikmynd ekkert svið bara leikarar og texti. 4 leikarar 3 leikskáld enginn leikstjóri Allt unnið hratt og lifandi. Allt sýnt hratt og lifandi. Ekkert er eins. Allt þarf aldrei að vera eins. Tengdasynir Jódísar eru allir fyrrum eða núverandi nemendur við Leiklistardeild Listaháskóla Íslands.

Leikhús: Götuleikhús Hins Hússins
Fimmtán götuleikarar vinna undir leiðsögn leikstjóra. Götuleikhúsið mun glæða götur og torg borgarinnar lífi og fá fólk til að nema staðar í hraða hversdagsins, upplifa öðruvísi hversdag og velta fyrir sér því sem lífið hefur upp á að bjóða.

Myndlist: Listræn hjörtu
Listræn hjörtu sem þrá og sakna...Hópur þriggja listamanna sem allir stunda nám við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Hjörtun munu standa fyrir ýmisskonar myndlistartengdri skemmtan í borginni í sumar. Sem dæmi um starfsemina má nefna heilsársblóm í grasagarðinum og karamelluregn.

Myndlist: Málarinn
Einstaklingsverkefni nemanda sem stundar nám við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Málarinn ætlar að setja upp myndlistarsýningar á (öðruvísi) sérvöldum stöðum í miðbænum, eins og til dæmis í auðum búðargluggum og jafnvel undir berum himni. Þannig er ætlunin að lífga allverulega upp á skuggasund og ýmis tóm og auð svæði í Reykjavík.

 Flýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit