Þú ert að skoða gamla vef Hins Hússins - Fara á nýjan vef


Hópar 2005

Eitt af fjölmörgum verkefnum Hins hússins eru  Skapandi sumarstörf. Ungu fólki  gefst kostur á að sækja um og koma með hugmyndir að skapandi sumarverkefnum sem að þau fá síðan tækifæri til að vinna að í 6-8 vikur. Þessi verkefni eru afar fjölbreytt, skapandi og skemmtileg svo að vonandi eiga sem flestir eftir að fá að njóta þeirra á starfstímanum. Listafólkið stundar margt hvert nám við Listaháskóla Íslands og má því segja að margir séu komnir vel á veg með að gerast fagfólk í listum. Suma hópa skipar örlítið yngra fólk sem ekki er síður metnaðarfullt og er sköpungargleðin og krafturinn alls ráðandi. Unga fólkið gefur okkur tilefni til að líta upp úr hversdagsleikanum í önnum dagsins og Reykjavíkurborg verður staðurinn í sumar þar sem að allt getur gerst og von er á óvæntu stefnumóti við listagyðjuna í hinum ýmsu myndum.  Gleðilegt listasumar! 

Vinsamlegast hafið samband ef frekari upplýsinga er óskað.
asa@hitthusid.is
menning@hitthusid.is

 Efirtaldir skapandi sumarhópar eru starfandi hjá Hinu húsinu í sumar:

Farsældar frón
Fjöllistahópurinn Farsælda Frón er hópur fjögurra dans og leiklistarnema sem stefna að því að vinna litla leikþætti og viðburði sem fjalla um Ísland, hugmyndir Íslendinga um þjóðerni sitt og sjálfsmynd landans. Unnir verða margir litlir leikþættir sem fluttir verða jafnt á götum úti sem og í leikrýmum. Grundvöllur vinnunnar er íslenskur bókmenntaarfur, allt frá Íslendingasögum til nútímans og mun hópurinn vinna lítil verk úr þeim arfi með spunavinnu. Undir lok sumars er stefnt á að sameina vinnu undanfarinna vikna og setja upp eina stóra sýningu.

Strengjakvartettinn loki
Strengjakvartettinn Loki mun flytja klassíska tónlist á hinum ymsu stöðum á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Ætlunin er að kynna perlurstrengjabókmenntanna fyrir ólíkum hlustendahópum, m.a. á opinberum vinnustöðum, í fangelsum , á leikskólum, hjúkrunarheimilum og söfnum. Hápunktur sumarstarfsins verða opinberir tónleikar í Listasafni Íslands þar sem flutt verða verk eftir Béla Bartok og Ludwig van Beethoven.

Llama
Kvintettinn Llama kemur eins og ferskur fönkvindur inn í sumarstemmningu Reykjavíkurborgar. Þessi vingjarnlega, vel uppalda en örlítið viðsjárverða hljómsveit mun breiða út fagnaðarerindi fönksins og annarar hrynheitrar tónlistar á fjölförnum stöðum höfuðborgarinnar á næstu vikum, en líkt og suður-ameríska spendyrið sem hljómsveitin heitir eftir eru allir meðlimir Llama þolgóðir, stilltir í skapi og þaktir grófgerðum hárum.

Snarsveit Reykjavíkur
Snarsveit Reykjavíkur er verkefni sem miðar að virkni sem flestra í tónlist. Annars vegar verða hönnuð lítil hljóðfæri sem eru hálfpartinn sjálfspilandi. Hins vegar og aðallega mun Snarsveitin standa fyrir tónleikum stærstu hljómsveitar á Íslandi, þann 7.júlí kl.20 í Íþróttamiðstöðinni Austurbergi. Nánast allir sem spila á hljóðfæri og helst sem flestir stórir tónlistarhópar og kórar verða fengnir til að taka þátt í flutningi á verki sem tekur samtals 2 klukkustundir; æfing og tónleikar. Við erum tveir sem rekum þetta verkefni og höfum verið að þróa tónlist sem byggir á einföldum skipunum til mikils fjölda til að skapa hljóðvefi sem fléttast saman. Markmið hópsins er í grófum dráttum að koma fólki til tónlistar. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Snarsveitarinnar www.specap.com/snarsveit

Gestalæti
Tónlistarhópurinn Gestalæti samanstendur af fimm ungum stúlkum, tveimur söngkonum, fiðluleikara og tveimur píanistum sem allar stunda klassískt tónlistarnám í Reykjavík. Hópurinn mun meðal annars standa fyrir hádegistónleikum í Dómkirkjunni í Reykjavík sem og kvöldtónleikum í Iðnó þar sem vikið verður frá hefðbundinni tónleikahefð og í staðinn sköpuð hlýleg kaffihúsastemmning. Gestalæti mun taka sérstaklega fyrir tónlist eftir íslensku tónskáldin Atla Heimi Sveinsson, Jórunni Viðar, Sigvalda Kaldalóns, Jón Ásgeirsson, Jón Nordal og Jón Leifs. Nánari upplýsingar um tónleika er að finna á: www.hitthusid.is

Íslenski þjóðsöngurinn
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð! Fyllistu stolti við að heyra þessar línur eða hugsarðu hvaðan þú kannast við þessi orð? Það er almennt lítill áhugi fyrir íslenska þjóðsöngnum, lofsöngi og fæstir kunna hann eða tengja sig við hann. Verkefninu er ætlað að gefa hinum venjulega Íslendingi færi á að tjá hugmyndir sínar og tilfinningar gagnvart þjóðsöngnum og munu þær síðan verða túlkaðar á myndrænan máta af okkur.

Hýðið
Hópurinn samanstendur af þremur myndlistarnemum sem hafa áhuga á að færa nútímamyndlist nær almenningi og gera tilraunir með uppsetningu hennar í óhefðbundnu umhverfi. Þannig ætlar hópurinn að standa að myndlistar-uppsetningunni Hýðið einu sinni í viku í júní og júlí á götum borgarinnar og reyna að hafa jákvæð áhrif á götumenningu Reykjavíkur sem og vekja upp spurningar um nútímamyndlist og tilvist hennar.

Íslendingar
Hópurinn Íslendingar samanstendur af ljósmyndanema og nyútskrifuðum fatahönnuði frá Listaháskóla Íslands. Hópurinn mun leggja leið sína í bæinn með ljósmyndavél og úrval fallegra muna sem margir hverjir verða hannaðir af hönnuði Íslendinga. Ætlunin er að fá Íslendinga sem verða á vegi hópsins til þess að brosa framan í vélina og jafnvel að bera fylgihluti sem að hæfa hverju sinni til þess að ná réttu stemmningunni. Á þennan hátt getur hópurinn m.a. skoðað ólíka hópa þjóðfélagsins, síbreytilega götutísku Reykjavíkur ásamt því að fanga einstök augnablik og minningar á leið sinni vítt og breitt um Reykjavík.


Afmyndað afkvæmi hugarfósturs
Það verður borið í þennan heim, saman saumað úr filmubútum, myndskeiðum og brotnum römmum, kræklóttum og kvistuðum. Mauksoðið úr: Draumförum, martröðum, hamförum, tætingi, tryllingi, aflimunum, upplifunum, kátinu, terpentínu, bleki , blóði, heila, kúpu, kjamma, steini, rýjum hugann inn að beini, hlátri, grátri, miklu slátri. Látum það malla í tveggja mánaða stund. Í suðu-pottar-botninum orgar undurfagurt Afmyndað afkvæmi hugarfósturs.

Skapleikur
Skapandi sumarstörf Hins Hússins eru frjór vettvangur fyrir ungt fólk til að vinna að og prófa sig áfram með skapandi og listræn hugðarefni sín. Sumarið 2005 hljóta sextán ólíkir hópar starfslaun svo að þeir geti einbeitt sér að því að fá útrás fyrir sköpunarmátt sinn og örva sköpunargleðina. Hver hópur starfar við ákveðna listgrein sem hann hefur kosið sér sem vettvang. Hvernig skyldi þessum hópum reiða af í sumar? Hvaða markmið setja þeir sér og munu þeir ná þeim? Þessu ætlar Skapleikur að svara í stuttri heimildarmynd þar sem hópunum er fylgt eftir. Ennfremur vill Skapleikur rannsaka bakgrunn þátttakenda og athuga hvort sköpunarþráin sé það eina sem þeir eiga sameiginlegt eða hvort hún hefur mótað þá á einhvern annan hátt. Að lokum leikur Skapleik forvitni á að vita hvaða hugmyndir þátttakendur gera sér um sköpun og listir yfirhöfuð, fyrst hver þeirra hefur nú fengið tækifæri til að gefa sig heilshugar að sínum skapleik.

Listahópurinn Siggi
Það var nöturleg rigningarnótt. Kjartan fussaði og sveiaði þegar hann gekk inn í hrörleg húsakynni sín þar sem hvorki var vatn né rafmagn. Honum brá heldur betur í brún þegar alls ókunnugur maður stóð fyrir framan hann. Það lysti af honum líkt og af gullslegnum plútóníum jólatré. Kjartan: Heyrðu mig nú! Hver ert þú óboðni gestur? Ókunnugi maðurinn: Ég er nú bara Siggi. Iglusvipur kom á Kjartan en Siggi brosti svo skein í tennurnar. Kjartan: Nú já og hvert er erindi þitt hingað? Siggi: Að hressa og kæta. Kjartan: Komdu ekki nálægt mér. Siggi brá sér hvergi, dró munnhörpu úr vasa sínum og tók til við að spila barokk. Skyndilega fann Kjartan, sinn knúinn til að yrkja nyrómantísk ljóð, hann tók til fótanna og hljóp niður á Hagstofu þar sem hann fékk nafni sínu breytt í “Lárus”. Endir.

Fimleikahópurinn Þrjár fræknar
Fimleikarhópurinn Þrjár fræknar eru furðulegar verur sem æða um bæinn. Erfitt er að segja til um hvað snyr upp og hvað niður á þeim og eiga þær það til að hoppa hæð sína í loft upp ef þær eru í góðu skapi og vel viðrar. Verið á varðbergi og þið gætuð séð þeim bregða fyrir í sundi eða á götum borgarinnar!

Götuleikhúsið
tíu götuleikarar vinna undir leiðsögn leikstjóra. Götuleikhúsið mun glæða götur og torg borgarinnar lífi og fá fólk til að nema staðar í hraða hversdagsins, upplifa öðruvísi hversdag og velta fyrir sér því sem lífið hefur uppá að bjóða. (Tengiliður: Listsmiðjan, sími:5113430)

Drýas
Dísa, Þorbjörg og Laufey hafa allar stundað tónlistarnám frá blautu barnsbeini og eru í haust að hefja sitt þriðja ár í tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Í sumar verða þær með íslenska tónlist í brennidepli fyrir sópran, selló og píanó og munu þær spila tónlist allt frá miðöldum og fram til okkar daga. Drýas mun halda tónleika í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur, í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og á Ásmundarsafni. Á dagskránni verða m.a. verk eftir Áskel Másson, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Hafliða Hallgrímsson, Snorra Sigfús Birgisson, Hjálmar H. Ragnarsson og Jón Leifs. Einnig munu þær spila íslensk þjóðlög í nýjum útsetningum Jónasar Tómassonar.

Lesið á leiðinni.
Arndís Þórarinsdóttir er tuttugu og tveggja ára gamall bókmenntafræðinemi og hyggst eyða sumrinu í að skapa smásagnasafn um borgina og fólkið sem byggir hana. Sögurnar verða svo til sýnis í því neti sem liggur um borgina alla og tengir ólíka borgarhluta, sameinar borgarbúa og tryggir þeim ferðafrelsi: Strætó. Reykvíkingar geta því búist við kærkominni afþreyingu í strætó í ágúst þegar sögurnar verða hengdar upp í vögnunumFlýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit