Þú ert að skoða gamla vef Hins Hússins - Fara á nýjan vef


Hópar 2007

Skapandi sumarhópar Hins hússins 2007!

Skapandi sumarhópar Hins hússins hafa nú þegar tekið til starfa og eru á kafi í undirbúningi og vinnu við þau verkefni sem að valin voru í ár. Hóparnir 14 ætla í sumar að skemmta gestum og gangandi á götum Reykjavíkur og 15.júní næstkomandi mun fyrsta Föstudagsfiðrildi Hins hússins flögra um miðbæinn á milli 12 og 14. Sumir hópanna hafa þó tekið forskot á sæluna og eru nú þegar komnir út undir beran himinn að gleðja augu vegfarenda í sólskininu! Sjá nánar um viðburði á forsíðu Hins hússins.
 
Hlökkum til að sjá ykkur í sumar!

Þjóðlagakvintett Tepokans

www.myspace.com/tepokinn

Tepokinn er sprengjuhópur skapandi sumarstarfa 2007 sem samanstendur af fimm ungum og efnilegum jazznemum. Í sumar ætla þeir félagar að varpa rythmískum sprengjum frá hinum ýmsu heimsálfum á Reykjavíkurborg. Kvintettin skipa Ingimar Andersen (saxófónar), Jóhannes Þorleiksson (trompet), Kristján Tryggvi Martinsson (píanó, nikka), Leifur Gunnarsson (kontrabassi), Magnús Trygvason Eliassen (trommur, slagverk).

Dúóið Para-Dís

www.blog.central.is/flautarinn

Dúóið Para-Dís er skipað tveimur ungum hljóðfæraleikurum, þeim Hafdísi Vigfúsdóttur flautuleikara og Kristjáni Karli Bragasyni, píanóleikara. Þau eiga bæði langt tónlistarnám að baki og stunda um þessar mundir framhaldsnám í tónlist í París. Verkefnið sem þau vinna að á vegum Hins hússins í sumar nefnist “Tónaregn í Reykjavík”. Markmið verkefnisins er að skemmta sem flestum, óháð aldri, heilsufari og fjárhagi.  Verkefnið er fimmþætt: Að spila á dvalarheimilum aldraðra, sambýlum og hjúkrunardeildum spítalanna; að spila á leikskólum; að halda tónleika í kirkjum og listasöfnum borgarinnar; að spila í heimahúsum og í lokin að halda tónleika til styrktar ungu fólki sem orðið hefur fyrir erfiðleikum.


Vinir Láru

www.einarogdori.blog.is/blog/einarogdori/

Vinir Láru eru tveir ungir menn á tvítugsaldri með afar breitt áhugasvið. Því til sönnunar má nefna fyrirbæri eins og bílflautu í Renault-bifreið, söngvarann Bergþór Pálsson, hljómsveitina Hanson, indíánahöfðingjann Sævar og Fache. Vinir Láru ætla þó að einbeita sér að Þórbergi Þórðarsyni í sumar og þá einna helst vísunum sem hann samdi á sinni litskrúðugu ævi. Þeir munu semja lög við vísur Þórbergs og vonandi gleðja með þeim bæjarbúa, gesti og gangandi í íslenskri sumarrigningu. Vísur Þórbergs og lög Vina Láru munu óma um stræti Reykjavíkur þar til nætursólin sekkur aftur í hafið, rís, hnígur og deyr. Vinir Láru eru þeir Einar Aðalsteinsson og Halldór Armand Ásgeirsson.


Rafhans 021

www.myspace.com/rafhans

Rafhljómsveitina Rafhans 021 skipa tveir 17 ára drengir, þeir Áskell Harðarson og Unnsteinn Stefánsson. Þrátt fyrir ungan aldur hafa sameiginlegir tónar umlukið þá allt síðan þeir voru í tónfræði hjá Jóhönnu Lövdahl 6 ára gamlir; þó með nokkrum pásum. Markmið rafhljómsveitarinnar Rafhans 021 er að gleðja augu og eyru sem flestra sumarið 2007 með alls kyns hætti, þó mest megnis með tónum. Markhópur Rafhans 021 nær frá leikskólabörnum til eldri borgara. Í grunninn er tónlistin kraftmikið, frumsamið rafpopp. Fjölbreytileikinn skipar stóran sess þar sem nákvæmlega sama hljóðfæraskipan verður aldrei notuð tvo tónleika í röð til að tryggja að hver flutningur verði einstakur.

Hljóðmyndaklúbburinn: SLEFBERI

www.myspace.com/slefberi

Hljóðmyndaklúbburinn: SLEFBERI hefur sett sér það að markmiði í sumar að setja vikulega saman tónlistarvænar ljósmyndasýningar á fjölförnum stöðum í borginni. Á þessum sýningum verður reynt að miðla til hins almenna borgara fjölbreyttri og nýstárlegri sýn á miðborg Reykjavíkur í tónlist og ljósmyndum. Meðlimir SLEFBERA eru Ásgerður Birna Björnsdóttir, Helena Aðalsteinsdóttir og Logi Leó Gunnarsson. Hægt verður að fylgjast með starfi og afrakstri hópsins á heimasíðu þeirra: www.myspace.com/slefberi

Xavier & McDaniel
Hópurinn Xavier & McDaniel er skipaður tónlistarmanninum Daníeli Ólafssyni og grafíska hönnuðinum Magnúsi Leifssyni. Xavier & McDaniel ætla sér í sumar að vinna með samband tónlistar og video-listar og láta reyna á samskipti þessara tveggja heima. Daníel sér um tónlistina en Magnús um sjónræna hlutann. Segja má að þetta sé bæði myndlistar- og tónlistarverkefni þar sem hinn sjónræni hluti verður til útfrá tónlistinni og öfugt. Í sumar verða þeir síðan með uppákomur þar sem afrakstur samstarfsins verður kynntur. Bæði tónlistin og video-verkin verða flutt lifandi á þessum uppákomum. Tónlistin er flutt með notkun "samplera", hljómborða, tölvu og plötuspilara. Myndböndin eru aftur á móti spiluð lifandi með notkun tölvu og hljómborðs sem stjórnar myndbrotunum.

Hönnunarhópurinn Títa

www.myspace.com/titadesign

Edda Sif Eyjólfsdóttir, Særós Rannveig Björnsdóttir, Svandís Friðleifsdóttir, Sandra Borg Bjarnadóttir og Elfa Steinarsdóttir skipa hönnunarhópinn Títu. Við höfum allar stundað grunnnám í textíl- og fatahönnun. Aðalviðfangsefni hópsins er að fá útrás fyrir hugmyndir okkar og láta þær verða að veruleika. Á dagskrá hjá okkur í sumar eru ýmsar uppákomur í miðborg Reykjavíkur s.s. lifandi gínur á Laugavegi þann 17.júní, prjónað á Austurvelli, ólukkuleg tíska föstudaginn 13.júlí, lokatískusýning ásamt fleiri viðburðum tengdum tísku og hönnun.

Reiðhjólagengið Ræbbblarnir

www.myspace.com/raebbblarnir

Við erum Reiðhjólagengið Ræbbblarnir, hópur pönkara sem hefur áhuga á reiðhjólum. Gengið var stofnað fyrir um tveim árum, þá undir nafninu RVK Bike Brigade. Við höfum ekki látið mikið fyrir okkur fara til þessa, en í sumar er komið að því að koma málstað okkar á framfæri - gera við og smíða hjól auk þess að standa fyrir ýmsum uppákomum tengdum hjólreiðum. Við viljum fleiri hjól á göturnar og berjumst fyrir bættri hjólamenningu. Í okkar augum er hjólið ekki einungis áhugamál heldur einnig skemmtilegt leikfang og tilvalinn ferðamáti. Markmið okkar er að koma ÞÉR á hjól! Gengið skipa: Herdís Ingibjörg Svansdóttir, Ægir Freyr Birgisson, Ingibjörg Ingvarsdóttir, Viktor Orri Dietersson, auk margra annarra sjálfboðaliða.

Filmuklukka
Eva Rún Snorradóttir ætlar að máta vídeómiðilinn við fyrirframákveðna tímaramma. Láta hann hlýða ákveðnum reglum og aðferðum til að koma honum í form. Finna hann og týna honum. Lýsa eftir honum í öðrum miðlum.


OB-Leikhópurinn
Við erum tveir leiklistarnemar við Listháskóla Íslands. Í sumar langar okkur að rannsaka einn mikilvægasta þátt leikhússins, áhorfandann. Við ætlum að ferðast á milli staða, athuga hvað fólki finnst um leikhús og hvað það myndi vilja sjá á fjölunum, fengi það að ráða. Út frá þessum heimsóknum munum við svo vinna fjögur verk sem verða sýnd á ýmsum stöðum, víðs vegar um borgina. Það eru allir velkomnir að koma að sjá og taka þátt í rannsókninni með okkur, vonandi á sólríku og skemmtilegu sumri. Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir og Bjartur Guðmundsson.

Götuleikhús Hins Hússins
Götuleikhús Hins Hússins mun glæða götur og torg borgarinnar lífi og fá fólk til að nema staðar í amstri hversdagsins, upplifa öðruvísi hvunndag og velta fyrir sér því sem lífið og listin hefur uppá að bjóða.

Fjöllistarhópurinn Götulíf
Við, Anna Þóra Alfreðsdóttir, Aríel Pétursson, Gunnur Eiríksdóttir, Jóhann Jónsson, Lúðvík Snær Hilmarsson og María Þórdís Ólafsdóttir, erum Fjöllistarhópurinn Götulíf. Við munum einbeita okkur að margbreytileika og sérkennum manneskjunnar og túlka upplifun okkar á mismunandi þjóðfélagshópum sem og menningu þeirra. Við höfum brennandi áhuga á að lífga upp á götulíf borgarinnar með gjörningum, leikþáttum, dansi og tónlist. Mikil sköpunargleði ríkir meðal hópmeðlima Götulífs og erum við vægast sagt æst í listina. Við höfum sterkar hugmyndir um það hvernig við munum hleypa miklu lífi í götur miðbæjarins í sumar og færa þannig listina úr sínu hefðbundna formi. Ekki heitum við Fjöllistarhópurinn Götulíf fyrir ekki neitt. Eitt af markmiðum okkar í sumar er að kynna listina fyrir borgarbúum og færa hana meðal annars inná elliheimili og leikskóla í grenndinni með öllum okkar litríku hæfileikum.

Danshópurinn Samyrkjar

www.myspace.com/samyrkjar

Samyrkjar er norrænn danshópur, stofnaður sumarið 2007 og samanstendur af sex dönsurum frá Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð. Í sumar ætlum við taka okkur margt forvitnilegt og skemmtilegt fyrir hendur og lífga upp á borgina okkar með dynjandi danssveiflu. Fylgist því vel með á myspace síðunni okkar www.myspace.com/samyrkjar, hvar og hvenær við verðum á ferðinni. Við byrjum daginn snemma með upphitunartímum og í þá tíma langar okkur að bjóða öðrum dönsurum og lengra komnum dansnemum að koma og sprikla með okkur í ballett, spuna, nútímadansi, jóga eða einhverju öðru sniðugu sem við bryddum upp á. Afrakstri sumarsins verður síðan skellt saman í eina glæsilega sýningu sem sýnd verður í Tjarnarbíó í lok júlí og vonumst við til þess að sjá sem flest ykkar þar. Að loknu sumarstarfinu hér í Reykjavík ætlum við að halda í víking og sýna verkið okkar líka í Stokkhólmi og vonandi víðar. Hlökkum til að sjá ykkur í sumar, Ásgeir Helgi, Guðrún, Inga Maren, Jaana, Maryam og Stina. Verkefnið okkar er einnig styrkt af: Evrópu Unga Fólksins, Norræna menningarsjóðnum, Menningarsjóð Íslands og Finnlands og Sænsk-íslenska samstarfssjóðnum.

HNOÐ

www.myspace.com/kjotkjot

Við erum danshópurinn HNOÐ og í sumar ætlum við að lífga upp á listalíf Reykjavíkur með því að sýna vinnu okkar á götum miðborgarinnar. Efnisskráin verður fjölbreytt og aðgengileg fyrir alla. Við hvetjum sem flesta til þess að taka þátt í upphitun á góðviðrisdögum, en þá verðum við til dæmis á stúfunum á Austurvelli. Sérstakir viðburðir verða auglýstir betur á heimasíðu okkar Ásrún Magnúsdóttir Berglind Pétursdóttir Rósa Ómarsdóttir Védís Kjartansdóttir

 Flýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit