Þú ert að skoða gamla vef Hins Hússins - Fara á nýjan vef


Hópar 2008

Skapandi  Sumarhópar Hins hússins 2008!
 
Skapandi Sumarhópar Hins hússins hafa nú þegar tekið til starfa og eru á kafi í undirbúningi og vinnu við þau verkefni sem að valin voru í ár. Hóparnir 12 ætla í sumar að skemmta gestum og gangandi á götum Reykjavíkur og 13.júní næstkomandi mun fyrsta Föstudagsfiðrildi Hins Hússins flögra um miðbæinn á milli 12 og 14. Sumir hópanna hafa þó tekið forskot á sæluna og eru nú þegar komnir út undir beran himinn að gleðja augu vegfarenda í sólskininu! Sjá nánar um viðburði á forsíðu Hins hússins.
 
Hlökkum til að sjá ykkur í sumar!

Gallerí Íbíza Bunker

Gallerí Íbíza Bunker er nýtt sýningarrými í galleríflóru Reykjavíkur, staðsett að Þingholtsstræti 31 og var stofnað í apríl 2008 af Ragnheiði Káradóttur og Sigríði T. Tulinius.

Markmið gallerísins er að sýna verk framsækinna myndlistarmanna óháð aldri, menntun og fyrri störfum. Á hverri sýningu er ætlunin að gestir geti virt fyrir sér myndlist, hlýtt á lifandi tónlist og notið samveru í garði gallerísins, þar sem myndast hefur mikil leikgleði meðal sýningargesta, sem oftar en ekki hafa farið í badminton og aðra útileiki. Á því átta vikna tímabili sem skapandi sumarstarf Hins Hússins spannar verða haldnar átta sýningar, ein í hverri viku, en allar munu þær opna kl. 17:00 á föstudegi og á hverri opnun verða einnig haldnir tónleikar. Að auki verða þrjár auka uppákomur á þriðjudögum, utan skipulagðra sýninga. Allir viðburðir verða kirfilega auglýstir og verður galleríið opið föstudaga frá 17-20.

www.myspace.com/ibizabunker

Fyrsta sýning sumarsins er 6. júní en þá mun Páll Haukur Björnsson vera með einkasýningu en hann nýútskrifaður úr Listaháskóla Íslands.

Reimar

Reimar samanstendur af fimm einstaklingum sem munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að glæða Reykjavík nýju lífi, hvað varðar tónlistarlegt andrúmsloft. Meira af þessu, meira af hinu – spyr fólk sjálft sig, daginn út og inn, en þú munt aldrei vilja fá nóg af Reimari.

www.myspace.com/bandidreimar

Tónlistin sem þeir spila er vandlega samansett blanda af hinu og þessu. Þar má greina austur-evrópska músík, djass, hip hop og nútímatónlist. Þegar sól tekur að rísa á daginn og athafnamennirnir og lífsspekúlantarnir fara á kreik, munu þeir spretta fram eins skrattinn úr sauðaleggnum og spila á hinum og þessum götuhornum bæjarins.

Aukinheldur munu þeir koma fram á vel auglýstum tónleikum sem fara munu fram í til þess ætluðum húsum. Þar munu hljóma endurútsettar perlur í bland við frumsamið efni.

Hirðskáld Hins hússins

Hirðskáld Hins hússins (Sverrir Norland) skakklappast í sumar vítt og breitt um borgina með skáldskap og tónlist á silfurfati. Það flytur ýmist ljóð sín og sögur, ellegar frumsamin lög vopnað gítar, munnhörpu og undurblíðri söngrödd.

Áhugasamir geta fundið skáldið á förnum vegi, hringt í símanúmerið 898-5986 eða sent tölvupóst á snorland@gmail.com.

Reykjavík Looks

Saga Sigurðardóttir og Elísabet Alma Svendsen eru stúlkurnar á bak við Reykjavík Looks. Þær hafa brennandi áhuga á tísku og eru báðar að hefja nám næsta haust, Saga í tískuljósmyndun í London og Elísabet í fatahönnun við Listaháskóla Íslands.

Í sumar ætla þær mynda tískuglaða Reykvíkinga og setja á síðuna sína, www.reykjaviklooks.blogspot.com. Ásamt því munu þær taka viðtöl við tískuáhugafólk, fjalla um íslenskar verslanir og fatahönnuði og birta á síðunni, prenta plaköt, halda tískusýningu og margt fleira spennandi, svo fylgist vel með!


Únettinn Harpa

Únettinn er eingöngu skipaður hörpuleikaranum Sólveigu Thoroddsen, sem leikur á klassíska hörpu og írska hörpu.

Hún hyggst í sumar bjóða hverjum sem hlusta vill upp á lifandi klassíska tónlist í bland við þjóðlög undir berum himni og gera þannig auðmjúka tilraun til að lífga upp á götumyndina. Einnig er það hluti af verkefni hennar að spila innanhúss og halda nokkra litla hörputónleika.


Myndlistartvíeykið Flýjandi

Myndlistartvíeykið Flýjandi skipa þær Sunna Kristín Hannesdóttir og Þorgerður Þórhallssdóttir.

Hugmynd þeirra er að vinna bæði á sviði myndlistar og fatahönnunar, blanda því saman og kanna mörkin þar á milli. Þær munu standa fyrir uppákomum af ýmsu tagi í miðbæ Reykjavíkur, í formi gjörninga, myndbanda og ljósmynda í búðargluggum, hljóðverka, innsetninga, óhefðbundinna tískusýninga og fleiru.

Með þessu hyggjast þær opna augu og auka áhuga gangandi vegfarenda á myndlist og hönnun og að sjálfsögðu glæða hversdagsleikann litum og lífi.

HVIK

Í sumar ætlar danshópurinn HVIK að lífga upp á miðborg Reykjavíkur. Markmið okkar er að gera danslistina sýnilegri og aðgengilegri almenningi.

Í hverri viku munum við sýna dans og gjörninga á víð og dreif og vekja þannig athygli á ýmsum spennandi og leyndardómsfullum stöðum í miðborginni.

www.myspace.com/hvik

HVIK samanstendur af lokaársnemendum úr Listdansskóla Íslands; Önnu Margréti Ásbjarnardóttur, Frank Fannari Pedersen, Hugrúnu Jónsdóttur og Ingu Huld Hákonardóttur.

Tríóið Glingur

Tríóið Glingur, skipað þeim Sólborgu Valdimarsdóttur (píanó), Karli Jóhanni Bjarnasyni (selló) og Maríu Konráðsdóttur (klarínetta og söngur), var stofnað með það fyrir augum að kynna sígilda tónlist fyrir almenningi.

Í sumar munu þau halda tónleika víðsvegar um Reykjavík og má þar helst nefna tónleikaraðir í Þjóðmenningarhúsinu og Dómkirkjunni.

Á efnisskrá hópsins eru m.a. verk eftir Beethoven, Hartmann og Glinka ásamt verkum eftir kunn íslensk tónskáld. Tríóið mun að auki frumflytja tónverk eftir ung íslensk tónskáld sem hafa nýlokið námi við Listaháskóla Íslands.

Stígis

Hefur þig einhvern tímann langað til þess að geta tekið þátt í bíómynd, eða gengið um inni í bók eða svarað leiknum persónum? Hefur þig einhverntímann langað til þess að upplifa atburð úr mannkynssögunni eða breyta framvindu leiksýningar.

Þetta verkefni stefnir að því að lífga upp á andrúmsloftið út um alla Reykjavík með því að gefa fólki tækifæri á einmitt þessum hlutum.

Stígis er fjögurra manna leynileikhópur sem mun koma þér á óvart tvisvar í viku með leynilegum leikþáttum og huldum gjörningum í allt sumar. Hafðu augun opin og passaðu þig.

Fylgist með starfi hópsins á slóðinni www.stigis.is

Leikhópinn skipa Kjartan, Unnur Birna, Snæbjörn og Rut.

Skver kvartettinn

Við erum Skver kvartettinn. Kvartettinn skipa efnilegir tónlistarnemendur úr Tónlistarskóla FÍH.

Markmið hópsins er einfalt: að spila tónlist! Tónlistin verður bæði frumsamin og eftir þekkta reynslubolta. Hún kemur til með að heyrast á fjölförnum stöðum í miðbæ Reykjavíkur. Við reynum að einskorða okkur ekki við ákveðna strauma eða stefnur og viljum þannig kanna snertifleti ólíkrar tónlistar. Auk vegfarenda í miðbæ Reykjavíkur er stefnt að því að kynna tónlist okkar fyrir yngstu kynslóðinni: þátttakendum í leikjanámskeiðum ÍTR.

Hljóðfæraskipan er: Helgi Rúnar Heiðarsson: Saxófónn, Höskuldur Eiríksson: Trommur, Leifur Gunnarsson: Kontrabassi og Steinar Guðjónsson: Gítar.

www.myspace.com/skver

Ekki gleyma: Það er hipp að vera skver!

Sub Rosa – rannsókn.

Sub Rósur eru Una Björk Sigurðardóttir og Saga Ásgeirsdóttir.

Rannsóknin gengur út á að skoða, safna og vinna úr efni og upplýsingum um innflytjendur á Íslandi. Við munum nálgast efniviðinn út frá listrænni framsetningu og verður afraksturinn í formi innsetninga, gjörninga eða videólistar.

Ætlunin er að rannsaka veruleika innflytjenda á Íslandi; lífssýn þeirra og væntingar, draumar og þrár, viðhorf og fordómar sem þeir kunna að mæta. Hvað er líkt eða ólíkt með væntingum og þrám Íslendinga og innflytjenda? Eru líkindin milli þjóðerna ekki frekar meiri en minni? Um hvað erum við þá að hnjóta í samskiptunum?

Hver eru viðhorf Íslendingar til vaxandi fjölþjóðasamfélags hér á landi? Eru Íslendingar skrifaðir með stóru Í-i eða...?

Flütter

Hafdís Vigfúsdóttir stundar um þessar mundir nám í flautuleik í París. Líkt og farfuglarnir flýgur hún heim í sumarbyrjun með flautuna á bakinu, tilbúin að blása til sumars! Í júní og júlí mun hún flytja Reykvíkingum og nærsveitungum samsuðu tónlistar frá ýmsum heimshornum s.s. Frakklandi, Argentínu og Japan.

Auk opinberra tónleika í kirkjum, á listasöfnum og kaffihúsum heldur Hafdís tónleika á nokkrum af hinum fjölbreyttu vinnustöðum borgarinnar í samvinnu við atvinnurekendur.

 Flýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit