Þú ert að skoða gamla vef Hins Hússins - Fara á nýjan vef


Hópar 2009

H2 - Skapandi Sumarhópar Hins hússins eru í þann mund að taka til starfa og eru á kafi í undirbúningi og vinnu við þau verkefni sem að valin voru í ár. Hóparnir átta ætla í sumar að skemmta gestum og gangandi á götum Reykjavíkur og 12. júní næstkomandi mun fyrsta Föstudagsfiðrildi Hins Hússins flögra um miðbæinn á milli klukkan 12:00 og 14:00.
 
Hlökkum til að sjá ykkur í sumar!

Agent Fresco

Agent Fresco endurútsetja lögin sín og spila fyrir gesti og gangandi í reykvískri sumarblíðu.

Agent Fresco er hljómsveit skipuð þeim Þórarni Guðnasyni gítarleikara, Arnóri Dan Arnarsyni söngvara, Hrafnkeli Erni Guðjónssyni trymbli og Borgþóri Jónssyni kontrabassaleikara. Agent Fresco hafa mikið látið að sér kveða í íslensku tónlistarlífi á þessu eina ári sem hljómsveitin hefur verið starfandi. Meðal annars unnu þeir Músíktilraunir 2008, fengu Kraumsverðlaunin fyrir eina af bestu plötum sama ár og fengu viðurkenningu sem bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum.

"Við erum allir úr FÍH, höfum lært jazz og klassík og langar að nýta þá þekkingu í tónlistarsköpun. Við munum endurútsetja lögin okkar í jazz akústískum stíl og spila í þeim stíl við rétt tækifæri, til að mynda úti á götu, en halda áfram að semja lög í okkar upprunalega stíl og spila í þeim stíl á þess háttar tónleikum. Þ.e.a.s láta aðstæður ráða tónlistarstefnu okkar eins og kamelljón."


Brasskarar

Málmblásturssveitin Brasskarar hafa einsett sér að sigra hjörtu hins almenna farþega lífsins með glæstum lúðrablæstri og rokna stuði. Leikið verður á götum úti og inni, þar til himnarnir opnast og þökin lyftast. Eins og við má búast verða Brasskarar með fjölbreytta efnisskrá á sínum snærum, en verkin spanna allt frá rafmagns-raunsæi til töfra-módernisma.

Brasskarana skipa þær Bergrún Snæbjörnsdóttir á horn, Harpa Jóhannsdóttir á bassabásúnu, Ragnhildur Gunnarsdóttir á trompet, Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir á básúnu og Valdís Þorkelsdóttir á trompet.

Stúlkurnar verða á útopnu í sumar og taka þátt í flestu, nema þó að koma naktar fram.

Crymoguide

Markmið verkefnisins er að sýna gestum og íbúum Reykjavíkur borgina í nýju ljósi. Til þess notum við hjólreiðavagn eða svo kallaðan „rickshaw.“ Farþegi sest upp í vagninn og er leiddur endurgjaldslaust um söguslóðir miðbæjarins. Að verkefninu standa systkinin Páll Zophanias Pálsson, nýútskrifaður leiðsögumaður, og Solveig Pálsdóttir myndlistarkona.

Við vonumst til að verkefnið auki á fjölbreytileika í ferðamennsku í miðborginni og gefi ferðafólki kost á að upplifa þokka og söguslóðir miðborgarinnar.

Gúmmískáldin

Ásta Fanney Sigurðardóttir og Ástríður Tómasdóttir eru Gúmmískáldin, skáld Gúmmís. Í sumar takast þær á við listform sem hefur ekki enn skotið föstum rótum í íslensku menningarlífi, svokallað ljóðaslamm, en því má lýsa sem bræðingi gjörningalistar og skáldskapar.

Götuvafrarar og strætisráfarar eiga því von á að rekast á tvær gúmmíhjúpaðar verur flytja ljóð á nýstárlegan hátt á götum miðborgarinnar, svölum miðborgarinnar eða bara einhvers staðar annars staðar. Með þessum tilfæringum hyggjast þær færa ljóðið niður af þeim stalli sem því er títtskipað á og hnoða því saman við deig hins daglega brauðs. Og sjá! Hið daglega brauð verður daglegur kanilsnúður!

Götusögur

Götusögur byggja á þeirri speki að þegar einar dyr lokast, þá opnast aðrar. Þannig sprettur verkefnið upp úr því hruni sem orðið hefur á auglýsingamarkaði. Undanfarið hefur losnað um auglýsingapláss í strætóskýlum og því ákváðu aðstandendur verkefnisins að útbúa skemmtiefni í stað auglýsinganna sem er gangandi vegfarendum og farþegum til yndisauka.

Götusögur eru stutt bókmenntaverk sem sett eru upp á viðeigandi hátt svo úr verði samspil texta og mynda. Í hverri viku líta fimm nýjar Götusögur dagsins ljós í strætóskýlum víðs vegar í Reykjavík.

Aðstandendur Götusagna eru textahöfundarnir Hafsteinn Gunnar Hauksson, 20 ára, og Jóhann Alfreð Kristinsson, 24 ára, auk hönnuðarins Birgis Þórs Harðarsonar, 20 ára.

Ramadansfjelagid

Guðrún Svava Kristinsdóttir, Halldóra Kristín Eldjárn og Heba Eir Jónasdóttir Kjeld.

Við ætlum að dansa.

Markmið sumarsins eru meðal annars könnun á óhefðbundnum staðsetningum og rýmum, bæði til æfinga og sýninga. Við viljum reyna á áhorfendur með auknum samskiptum og tilraunastarfsemi. Okkur langar að glæða miðborgina óhefðbundu fjöri og vekja áhuga og athygli á nútímadansi.

Netfang: ramadansfjelagid@gmail.com

Reginfirra

Hljómsveitin Reginfirra er samansett af fjórum kátum piltum; Daníel Friðrik Böðvarssyni (gítar), Ingimar Andersen (saxófónn), Kristjáni Tryggva Martinssyni Frewer (Hammond-orgel) og Snorra Páli Jónssyni Úlfhildarsyni (trommur).

Meðlimir munu í sumar vinna að eigin tónsmíðum auk þess að flytja áheyrilegan hluta þeirra fyrir alla sem vilja leggja við hlustir. Reginfirra mun birtast á ólíklegustu stöðum bæjarins og hrista upp í menningarlífinu með rafmagnaðri og orkuríkri tónlistarblöndu.

Takk & Takk
www.takkogtakk.blogspot.com

Markmið verkefnisins er að gleðja og kæta vegfarendur og almenna borgara með litlum glaðningum sem skildir verða eftir á víð og dreif, bæði á götum úti og á veraldarvefnum. Að verkefninu standa Borghildur Ína Sölvadóttir (www.solvadottir.com) og Rán Flygenring (www.shehasaplan.com). Þær eru báðar nýútskrifaðar sem grafískir hönnuðir frá Listaháskóla Íslands.

Takk & Takk munu vinna að gerð glaðninganna en þeir verða á mismunandi formi; sem myndskreytt skilaboð, brosarar, pappírsorður og póstkort. Dreifing þeirra fer svo fram fjórum sinnum í júní og júlí. Glöggir borgarbúar mega því búast við að ganga fram á þessar litlu gjafir á leið sinni um bæinn í sumar.

Verkefnið mun ekki einungis fara fram á götum borgarinnar heldur verður einnig hægt að gleðjast yfir ýmsu á

www.takkogtakk.blogspot.com

 Flýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit