Þú ert að skoða gamla vef Hins Hússins - Fara á nýjan vef


Hópar 2006

Hópar 2006
Eitt af fjölmörgum verkefnum Hins hússins eru svokölluð Skapandi sumarstörf. Ungu fólki  gefst kostur á að sækja um og koma með hugmyndir að skapandi sumarverkefnum sem að þau fá síðan tækifæri til að vinna að í 6-8 vikur.

Í ár sóttu 37 hópar um Skapandi sumarstörf en fjármagn var til að veita 19 verkefnum brautargengi.  Þessi verkefni eru afar fjölbreytt, skapandi og skemmtileg svo að vonandi eiga sem flestir eftir að fá að njóta þeirra á starfstímanum. Listafólkið stundar margt hvert nám við Listaháskóla Íslands og má því segja að margir séu komnir vel á veg með að gerast fagfólk í listum.Suma hópa skipar örlítið yngra fólk sem ekki er síður metnaðarfullt og er sköpungargleðin og krafturinn alls ráðandi. Unga fólkið gefur okkur tilefni til að líta upp úr hversdagsleikanum í önnum dagsins og Reykjavíkurborg verður staðurinn í sumar, þar sem að allt getur gerst og von er á óvæntu stefnumóti við listagyðjuna í hinum ýmsu myndum.
Gleðilegt listasumar!

Efirtaldir skapandi sumarhópar eru starfandi hjá Hinu húsinu í sumar:

Þremenningasambandið: Tónlist
Þremenningasambandið er tónlistarhópur sem hyggst lífga upp á miðborgina með klassískri tónlist í sumar. Hópinn skipa Arngunnur Árnadóttir, klarinetta, Ásta María Kjartansdóttir, selló og Halla Oddný Magnúsdóttir, píanó. Þær eru allar nemendur við Tónlistarskólann í Reykjavík. Á efnisskránni í sumar er m.a. tónlist eftir Beethoven, Bach, Brahms, Mendelsohn, Debussy og Messiaen, auk íslenskra tónskálda. Aðalmarkmið Þremenningasambandsins er að sýna almenningi, einkum ungu fólki, fram á ágæti klassískrar tónlistar.

Atlas: Tónlist
Þau Herdís, Þorbjörg, Eygló, Matthildur og Grímur mynda hópinn Atlas. Þau eru á aldrinum 18 -22 ára og hafa öll stundað nám við Listaháskóla Íslands. Atlas hyggst standa fyrir skemmtilegum tónlistaruppákomum í sumar víðsvegar um borgina og leggur áherslu á íslenska tónlist og þjóðlega tónlist frá ólíkum löndum.

Dúettinn Mímosa: Tónlist
Hjörtur og Gunnar eru báðir gítarleikarar sem skipa dúettinn Mimosa. Þeir munu spila músík víðsvegar um borgina í sumar. Leiknir verða þjóðþekktir húsgangar úr smiðju ekki minni manna en Biréli Lagrène, Grieg, John Scofield, Brecker bræðra og þá helst Django Reinhardt, svo einhverjir séu nefndir. Þrátt fyrir mikla spilagleði og hita, er tónlistin aðgengileg ungum sem öldnum.

Tepokinn: Tónlist
Tepokinn er jazzkvartett sem samanstendur af fjórum ungum og efnilegum jazznemum. Í sumar ætla þeir félagar að flytja rythmíska tóna á fjölförnum stöðum í Reykjarvíkurborg, ásamt því að æfa myrkranna á milli og stunda Müllersæfingar. Kvartettinn skipa Jóhannes Þorleiksson (trompet), Kristján Tryggvi Martinsson (píanó, nikka), Leifur Gunnarsson (kontrabassi), Magnús Trygvason Eliassen (trommur, slagverk).

Sigríður Hjaltalín: Tónlist
Sigríður Hjaltalín fæddist árið 1926 á Eskifirði, dóttir þeirra Kristínar og Geira Hjaltalín. Hún hlaut snemma almenna menntun í gagnfræðiskóla staðarins, ásamt því að leggja stund á tónlist og handiðnir ýmiskonar. Það kom snemma í ljós að mikið var í list hennar spunnið og var henni boðið 18 ára gamalli að flytjast til Reykjavíkur, sem hún og gerði fullveldisárið 1944. Ekki leið á löngu þar til hún hafði getið sér gott orð þar í bæ og skipti þá engum togum um hvort það væri dans, söngur, hoppukollhnís eða töfrabrögð. Árið 1945 stakk hún af með breskum dáta og hefur ekki sést á götum borgarinnar í hartnær sextíu ár. Yfir í aðra sálma: Sigríður Hjaltalín er hljómsveit skipuð þeim Guðmundi Óskari, Hirti Ingva, Högna og Sigríði. Í sumar munu þau leggja sitt af mörkum til menningarlífs borgarinnar.

Síbylur: Tónlist
Síbylur er pot tveggja tónlistarmanna í afmarkaða hluta þjóðarsálarinnar. Finnur og Andri synda á öldum ljósvakans, veiða og matreiða fyrir áheyrendur vel valin stef úr hafi síbyljunnar, og kafa dýpra eftir fallegum nostalgíukóröllum. Þeir munu ýmist koma fram tveir einir eða gyrtir fleira listafólki.

Drum Corperation of Iceland: Tónlist
Trommu dúetinn ,,Drum Corperation of Iceland” samanstendur af tveimur, mis hávöxnum herramönnum. Þeir eiga það eitt sameiginlegt að dýrka og dá trommuna og gera fátt annað á daginn en að æfa sig með hinum og þessum hljómsveitum. Þeir munu þó einungis spila sem dúet í sumar á götum borgarinnar með hrópum, kjuðaköstum, sprelli og tilheyrandi. Þó mis háir séu, eru þeir félagar ekki síðri í trommuleik sínum og ætla þeir að sýna Reykvíkingum og öðrum nærstöddum hvar Davíð keypti sneriltrommuna í sumar!

Cheddy Carteh: Tónlist
Við erum tónlistarhópurinn Cheddy Carteh sem spilar hráa blöndu af funk-jazz hip hop. Við ætlum að vera með rífandi stemningu á sundlaugarbökkum, leikskólum, göngustígum og götum Reykjavíkur. Bandið samanstendur af 3 pródusentum sem munu notast við samplera, dj græjur, trommur og við þetta bætast lifandi og æsandi tónar gítarsins og saxafónsins. Einnig ætlum við að fá seiðandi gestarappara á borð við Vald Wegan og Gun-J þegar tónarnir þarfnast vókala.

(Við viljum tryggja eigin) Loftvarnir: Tónlist
Loftvarnir eru skipaðar þremur ungum eldhugum sem hyggjast gleðja vegfarendur miðbæjarins með skemmtilegri popptónlist þetta sólríka sumar sem vonandi er að ganga í garð. Samhliða því munu liðsmenn Loftvarna leggja stund á tónsmíðar og reyna að flytja sem mest af frumsamdri tónlist. Eftir slakt gengi Silvíu Nætur í Evróvisjón þótti liðsmönnum tími til kominn að sýna evrópskum ferðamönnum sem hingað koma hvernig alvöru popptónlist á að hljóma.

Hljóðvirki til Samskipti: Myndlist og Fjöltækni
Tveir myndlistanemar úr Listaháskóla Íslands munu skapa hljóðverk í sumar sem ber nafnið Hljóðvirki til Samskipta. Verkið á að opna fyrir hömlur samfélagsins til að tjá sig. Samskipti er tjáning. Tjáning er eitthvað sem hver og einn þarfnast til að lifa. Verkið Hljóðvirki til Samskipta mun gefa þann kost að almenningur getur tjáð sig í því formi sem hann kýs sjálfur. Almenningur mun sjá verkið fæðast, það mun birtast á fjölförnum vegi í sumar og mun vaxa og eignast sinn eiginn tilverurétt.

Hönnunartvíeykið Stígvél: Myndlist og Fjöltækni
Við ætlum að skoða íslenska menningu frá ýmsum sjónarhornum. Týnd og sýnileg fyrirbæri íslenskrar menningar verða dregin fram í sviðsljósið. Þau verða notuð sem innblástur hönnunarinnar. Hugmyndaferlið er sýnilegt almenningi frá upphafi til enda, birtist t.d. í skissum, hugleiðingum og ljósmyndum á bloggsíðunni http://stigvel.blogspirit.com
Tilraunakenndar uppákomur tengdar rannsóknarvinnunni verða haldnar í júní og júlí á götum borgarinnar. Vinnan mun að lokum skila sér í hlutum sem sýndir verða í lok júlí nk.

Markmið okkar er að búa til hönnun byggða á íslenskum menningarfyrirbærum. Auk þess munum við kynna vinnuferli hönnuða fyrir almenningi, hvernig rannsóknir þróast í átt að hlut með notagildi.
http://stigvel.blogspirit.com

Grísalappalísur: Myndlist og Fjöltækni
Við Grísalappalísur erum fjöllistahópur skipaður fjórum yngismeyjum. Það sem við leggjum upp úr því að vera Grísalappalísa er að finna gríslinginn í sjálfum okkur, þar sem við erum nú einu sinni fæddar á ári svínsins og eigum á okkur svínslega skemmtilegar hliðar. Við munum hrista upp í daglegum veruleika borgarbúa með því að vera glaðningur fyrir augað jafnt sem andan með listrænni áheyrslu. Það að vera Grísalappalísa er pönk og prinsessur.

“Reykjarvíkurljóðin”: Myndlist og Fjöltækni
Hópurinn samanstendur af Magnúsi Leifssyni, Ágústi Bent Sigbertssyni og Erni Tönsberg. Meðlimir hópsins eru allir fæddir 1983 sama ár og Reykjavíkurskáldið, Tómas Guðmundsson, gekk á vit feðra sinna. Verkefnið sem hópurinn ætlar að takast á við í sumar tengist einmitt Tómasi og þeirri borgarmynd sem hann skapaði með skáldskap sínum. Ætlunin er að koma Reykjarvíkurljóðum hans upp á þeim stöðum sem þau vísa til, með tilheyrandi myndlistarverkum og uppákomum. Markmið hópsins er að fá vegfarendur til þess að sjá Reykjavík í nýju ljósi í gegnum ljóð Tómasar og vekja áhuga á ljóðum almennt.

Veggmyndir: Leikhús
Veggmyndir er leikhópur sem samanstendur af Önnu Þóru Sveinsdóttur og Hannesi Óla Ágústssyni, sem eru leikaranemar við Listaháskóla Íslands. Þau munu í sumar semja sýningu sem hefur vinnutitilinn Veggmyndir, en verkið verdur unnid upp úr sjálfshjálparbókum, dansi, kenningum existensialisma og leikritinu Glerdýrin e. Tennessee Williams. Frumsýning verdur i byrjun ágúst.

RannsóknarSVIÐ íslenskrar þjóðmenningar DAS EXPERIMENT: Leikhús
Undirrituð, Árni, Friðgeir, Karl og Kolbrún, erum meðlimir regnhlífarsamtakanna RannsóknarSVIÐ íslenskrar þjóðmenningar. Markmið okkar er að rannsaka mismunandi form leiklistar annarsvegar og hinsvegar viðbrögð áhorfenda, hvort sem er innan öruggra veggja stofnanna eða á götum hins grimma veruleika. Þar að auki munum við starfa að einstaklingsverkefnum sem verða sýnd á sviðslistahátíð ungs fólks í ágúst. Á fyrri hluta ferlisins verða haldin gjörningakvöld sem standa öllum opin hvort sem er til áhorfs eða þátttöku. Skráning atriða fer fram á netfanginu
svidslist@gmail.com
Staðsetning auglýst síðar.

Árni Kristjánsson, Friðgeir Einarsson, Karl Ágúst Þorbergsson, Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

Gjörningakvöld: 8. júní,16. júní,22. júní,29. júní
Sviðslistahátíð ungs fólks verður haldin 9.-15. ágúst.

Tríóið taumlausa: Leikhús
Tríóið er, eins og nafnið gefur til kynna, skipað einni sandstúlku og tveimur fullvaxta sandkarlbörnum. Það hyggst upplífga vegfarendur borgarinnar með skyndilegum örleikþáttum, æsispennandi ljóðlist, ómþýðum tónstraumum og hljóðfæraleik og hverju sem er. Þremenningarnir munu njóta fulltingis fjölmargra valinkunnra mannpersóna á borð við beljakann Magnús, listspekúlantinn og forfatterinn S.Jón, sagnadansarann Eskimó, fegurdísina Arndísi, kynninn Grímkel Pétur og Svövu Danley Upperlay-Day; hvort sem þær persónur holdgervast fyrir náð eða spretta fram í fyrstnefndu sandfólki hér efst.

Gámafélagið: Leikhús
Við erum fjórir hressir krakkar sem elska að flippa og gera eitthvað rugl! Við ætlum að hressa aðeins upp á miðbæinn!  Passið ykkur, því við ætlum að fylgjast svoldið með ykkur (Jón Spæjó! DJÓK!) . Við ætlum að horfa á ykkur og herma …samt ekki fara í þrautakóng!! (ROFL)
Vá! Hvað þið eigið eftir að hlæja  BÍÐIÐ ÞIÐ BARA!! Kannski finnst ykkur þetta ógeðslega ljótt samt, sjáum til , Vonandi fílið þið okkur! Sjáumst í sumar :Þ

Götuleikhús Hins Hússins: Leikhús
Tíu götuleikarar vinna undir leiðsögn leikstjóra. Götuleikhúsið mun glæða götur og torg borgarinnar lífi og fá fólk til að nema staðar í hraða hversdagsins, upplifa öðruvísi hversdag og velta fyrir sér því sem lífið hefur uppá að bjóða.

Íslenska Hreyfiþróunarsamsteypan: Dans
Dýraeftirhermur
Stórkostlegar fæðingar
Viðrini
Hvernig á að búa til lögreglumann?
Götun - öll sagan
Konur á dauðadeild
Hver vill verða ofurhetja?
Stærsti taparinn
Ertu heit/ur?
Rektu mig gjörðu svo vel
Þraukarinn
Hver vill giftast pabba mínum?
Fríða og nördinn
Drepum raunveruleikann
Ég vil frægt andlit
Stjörnupresturinn

Er sjónvarpið hinn nýi raunveruleiki? Hvað er eðlileg hegðun? Er það eðlilegt að fara í tugi lýtaaðgerða til þess að líkjast uppáhalds poppstjörnunni sinni. Eða vera ein af tuttuguog fimm stelpum til að keppast um hylli eins manns. Hversu langt er hægt að ganga...?
Tilraunaverkefni fimm nútímadansara.
Verkefnið er styrkt af UFE – Ungu fólki í Evrópu.

LATA STELPAN: Tímarit-Útgáfa
Lata stelpan er töff og veit hvað er töff. Mörgum finnst lata stelpan ekki vera töff af því hún er löt, rauðhærð og illa þrifin. Þetta fólk veit ekki hvað er töff. Hér kemur listi yfir það sem er töff: Jafnrétti kynjanna, ást og hamingja, leti (vanmetin dyggð), sjálfstæði, frumkvæði og femínismi. Hér kemur annar listi. Á honum eru hlutir sem ekki eru töff: Misrétti, staðalímyndir og að brjóta sig niður. Lata stelpan ætlar að opna augu heimsins fyrir sannleikanum. Fylgist með lötu stelpunni á:
www.latastelpan.isFlýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit