Þú ert að skoða gamla vef Hins Hússins - Fara á nýjan vef


Um Jafningjafræðsluna

Hugmyndafræði Jafningjafræðslu Hins Hússins er sú að ungur fræðir unga. Það sem felst í því er að forvarnir eru unnar af ungu fólki fyrir annað ungt fólk.

Jafningjafræðslan er rekin af Hinu Húsinu í Reykjavík. Fyrstu árin eftir að Jafningjafræðslan var stofnuð var aðallega einblínt á fíkniefnaforvarnir, en í seinni tíð hefur mikil áhersla verið lögð á sjálfsmynd ungs fólks og leitast við að styrkja hana og efla. Helsta ástæðan er sú að ýmsir fræðimenn telja að ýmis áhættuhegðun tengist sterklega slakri sjálfsmynd. Sterk sjálfsmynd er eitt besta veganesti sem unglingar fá út í lífið. Sterk og góð sjálfsmynd getur aukið velgengni og vellíðan og með því að styrkja sjálfsmynd ungs fólks er það betur í stakk búið til að standast neikvæðan hópþrýsting sem og að taka ábyrgar og upplýstar ákvarðanir í eigin lífi.

Störf jafningjafræðara eru mjög eftirsóknarverð hjá ungu fólki en allir fræðarar þurfa að gangast í gegnum strangt ráðningarferli og inntökupróf. Árlega þurfa margir hæfir einstaklingar frá að hverfa í ráðningarferlinu og til að mynda sækja árlega um 400 ungmenni um 10 lausar stöður hjá Jafningjafræðslu Hins Hússins.  Starfið er mjög krefjandi og fræðarar verða að vera vel í stakk búnir til að taka á móti fyrirspurnum af ýmsu tagi og þess vegna hljóta þeir þriggja vikna þjálfun áður en lagt er upp í fræðslu. Á undirbúningsnámskeiðinu eru kennd ýmis hagnýt fræði sem endurspegla ungmennamenningu hvers tíma frá fagaðilum ásamt því að fræðarar eru þjálfaðir í raddbeitingu, framkomu og hvernig gott er að vinna með hópa og einstaklinga innan þeirra. Á undirbúningsnámskeiði Jafningjafræðslu Hins Hússins er meðal annars lögð mikil áhersla á almenna lýðheilsu, styrkingu sjálfsmyndar, neyslu áfengis-, tóbaks- og vímuefna, kynlíf og kynheilbrigði, líkamsvitund og virðingu, klám, réttindi ungs fólks, fíkn, geðheilsu og einelti svo eitthvað sé nefnt.

Fræðsla Jafningjafræðslu Hins Hússins er gagnvirk og unnin á jafnréttisgrundvelli þar sem allir fræðarar eru sjálfir á aldrinum 17-21 árs. Við bjóðum ungmennum upp góða og hnitmiðaða fræðslu í félagsmiðstöðvum, grunn-, framhalds- og í vinnuskólum ásamt því að skipuleggja vímulausar uppákomur af ýmsu tagi. Við fræðum ungmennin um margvísleg málefni, svörum spurningum og brjótum daginn upp með skemmtilegum og fræðandi hópeflisleikjum. Við bjóðum ungmennum upp á fræðslu þar sem fram koma rök sem mæla með heilbrigðum lífstíl og gegn skaðlegri hegðun. Í fræðslu er bent á gildi góðrar sjálfsmyndar og heilbrigðs lífsstíls, ókosti vímuefnaneyslu auk þess sem fólk er styrkt til að standast hópþrýsting , að betra sé að sleppa heldur en að prófa. Einnig fer mikill tími í að leiðrétta þær ranghugmyndir sem ungmennin hafa og því mikilvægt að þeir sem hljóti fræðsluna séu virkir í fræðslunni.  Fræðslurnar okkar eru mjög gefandi fyrir ungt fólk þar sem þau fá sjálf að láta ljós sitt skína í umræðum og í hópeflinu. Þátttakendur taka með sér í veganesti jákvæðan, uppbyggilegan og þroskandi lærdóm sem þau geta svo vonandi nýtt sér í sínu eigin lífi. Flýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit